Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 594/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 594/2021

Miðvikudaginn 26. janúar 2022

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2021, kærði D lögmaður, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C frá 12. október 2021 um aukna umgengni fósturbarna þeirra, E, og F, við móður þeirra.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan E er X ára gömul og drengurinn F er X ára gamall. Móðir þeirra afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi C þann 6. febrúar 2018. Kynfaðir barnanna fór aldrei með forsjá þeirra. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar C og hafa verið í fóstri hjá kærendum frá því í mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri en frá febrúar 2018 í varanlegu fóstri.

Á grundvelli úrskurðar Barnaverndarnefndar C frá 2. maí 2018 hafa börnin haft umgengni við móður sína, tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti. Þann 24. september 2019 úrskurðaði Barnaverndarnefnd C að nýju um umgengni barnanna við móður tvisvar á ári í þrjár klukkustundir, undir eftirliti. Þann 10. júní 2021 úrskurðaði Barnaverndarnefnd C að móðir skyldi eiga umgengni við börnin þrisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þann 13. september 2021 var úrskurður Barnaverndar C frá 10. júní 2021 felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndar C. Móðirin fór fram á aukna umgengni við börn sín og var sú beiðni tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar C 12. október 2021. Samþykkt var að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti. Fósturforeldrar voru mótfallin aukinni umgengni.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, og var hún send lögmanni kærenda til kynningar samdægurs með bréfi úrskurðarnefndarinnar. Athugasemdir bárust frá kærendum þann 16. desember 2021, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd C til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar þann sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að umgengniskröfu móður verði hafnað og umgengni verði ákveðin óbreytt frá fyrri úrskurði, það er þrisvar sinnum á ári.

Börnin hafa verið í fóstri hjá kærendum óslitið frá því í mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri en frá febrúar 2018 í varanlegu fóstri. Fram komi í gögnum málsins og óumdeilt sé að fóstrið hafi gengið afar vel og að börnin hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kærendur. Í upphafi fóstursins hafi börnin sýnt talsverða vanlíðan og hafi átt í tilfinningalegum erfiðleikum vegna þess sem á undan hafði gengið. Því sé lýst í hinum kærða úrskurði að stúlkan hafi glímt við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti. Þá hafi þau bæði glímt við mikla streitu vegna vanrækslu og áfalla sem birtist í hegðun, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og tengslavanda. Þá sé það einnig óumdeilt að börnin hafi bæði tekið stórstígum framförum í líðan og þroska eftir að þau hafi komið til kærenda í fóstur. Það sé að þakka miklu og góðu utanumhaldi af hálfu kærenda og aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga.

Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar C, dags. 10. júní 2021, hafi verið ákveðið að móðir hefði umgengni við börnin þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Þar hafi verið um að ræða aukningu um eitt skipti frá því sem áður hafði verið ákveðið í upphafi varanlegs fósturs.

Móðir hafi kært þann úrskurð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi vísað málinu að nýju til Barnaverndarnefndar C með úrskurði í málinu nr. 304/2021. Virðist sem byggt hafi verið á því að bæði fósturforeldrar og börnin hafi lagt til að umgengni verði aukin en litið hafi verið fram hjá því í forsendum úrskurðar barnaverndarnefndar frá júní 2021. Í hinum kærða úrskurði, dags. 12. október 2021, sé tíðni umgengni aukin í fjögur skipti á ári með vísan til sömu röksemda og í úrskurðinum frá því í júní 2021 og að teknu tilliti til niðurstöðu úrskurðarnefndar.

Það sé óumdeilt að börnin dafni vel í fóstrinu. Þá sé það einnig óumdeilt að umgengni við móður hafi gengið vel og börnunum liðið vel með umgengnina, en það sé ekki síst að þakka stuðningi fósturforeldra við umgengnina, sem meðal annars hafi boðið móður á heimili sitt svo að börnin fengju tækifæri til að sýna henni aðstæður sínar. Þá hafi þau lagt sig fram um að viðhalda góðum og kærleiksríkum samskiptum við móður.

Kærendur byggi kæru sína á því að þann 10. júní 2021 hafi verið úrskurðað um aukningu á umgengni barnanna við móður um eitt skipti á ári frá því sem áður hafði verið. Umgengnin hafi farið úr því að vera tvö skipti á ári í tvær klukkustundir í senn í að vera þrjú skipti á ári í þrjár klukkustundir í senn. Rökin hafi meðal annars verið þau að ró og stöðugleiki hefði náðst í fóstrinu og börnin hafi óumdeilanlega sterk tengsl við fósturforeldra sína. Þá virðist sem umgengni þeirra við móður hafi ekki jafn truflandi áhrif á börnin og hafði verið í upphafi. Þá hafi verið horft til þess að fósturforeldrar væru ekki mótfallin aukningu um eitt skipti og börnin hefðu sjálf tjáð sig um tíðni umgengninnar og skilja mætti af þeirra frásögn að þau vildu auka við. Í forsendum úrskurðarins sé þó einnig litið til þess að börnin eigi umgengni við fleiri ættingja úr upprunafjölskyldu sinni og séu í góðum tengslum við ýmsa fjölskyldumeðlimi. Með vísan til alls framangreinds hafi þótt hæfilegt að auka umgengni úr tveimur skiptum í þrjú.

Sá úrskurður hafi af hálfu móður verið kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi fellt þann úrskurð úr gildi með úrskurði í máli nr. 304/2021. Að mati kærenda byggi sú niðurstaða á röngum forsendum, enda virðist byggt á því að í úrskurði barnaverndarnefndar, dags. 10. júní 2021, hafi ekki verið kveðið á um neina aukningu á umgengni frá því sem áður hafði verið. Kærendur bendi á að í úrskurðinum frá því í júní sé umgengnin aukin um eitt skipti á ári og slík aukning því þegar framkomin sem úrskurðarnefnd velferðarmála virðist ganga út frá að sé ekki.

Engu að síður sé málið tekið fyrir að nýju hjá Barnaverndarnefnd C og úrskurður kveðinn upp þann 12. október 2021. Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sé umgengni aukin um eitt skipti til viðbótar og því ákveðin fjögur skipti á ári. Það sé hinn kærði úrskurður. Þá sé aukningin orðin tvö skipti frá því sem áður hafi verið, sem samsvari 100% aukningu í tíðni en auk þess eigi hver umgengni að vera þrjár klukkustundir í senn, en á meðan hún hafi verið tvisvar á ári hafði umgengnin verið í tvær klukkustundir í senn.

Að mati kærenda sé hér um of mikla aukningu að ræða á umgengni barnanna við móður. Vísa þau til þess sem ítrekað hafi komið fram í málinu, þau hafi verið samþykk því og stutt aukningu á umgengni um eitt skipti frá tveimur skiptum, en geti ekki stutt aukningu umfram það. Svo virðist sem úrskurðarnefndin hafi byggt fyrri úrskurð sinn á þeirri forsendu að fósturforeldrar hafi viljað aukningu umfram þrjú skipti sem sé rangt.

Þá bendi kærendur einnig á að það virðist byggt á þeim forsendum við aukningu á umgengni, bæði hjá úrskurðarnefnd og hjá Barnaverndarnefnd C, að aðstæður hjá móður séu góðar og hún hafi haldið edrútíma meira eða minna síðan 2017 ef frá sé talin sprunga sem hafi staðið yfir í nokkra mánuði á árinu 2019 eins og það sé orðað í greinargerð móður til Barnaverndarnefndar C, dags. 11. maí 2021. Það sé einnig rangt og virðist sem upplýsingar þessar séu settar fram af hálfu móður í vondri trú gagnvart nefndinni. Í forsendum hins kærða úrskurðar sé byggt á þessum upplýsingum og tiltekið að móðir hafi haldið edrútíma frá 2019. Þá sé tekið fram að hún búi nú í úrræðinu G eftir að hafa klárað meðferðarúrræði á H. Einnig að sé hún virk í AA samtökunum og í I.

Móðir sitji nú af sér dóm í fangelsi þar sem hún sé dæmd í X ára og X mánaða fangelsi vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Um sé að ræða brot framin á árinu 2020 og fram í janúar 2021. Refsing sé ákveðin með tilliti til þess að um sé að ræða ítrekunaráhrif og hegningarauka við fjöldamörg önnur brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Að því er kærendur best viti hafi ekki verið upplýst um þann dóm við málsmeðferðina hjá Barnaverndarnefnd C nú í sumar og haust.    

Af hálfu kærenda sé farið fram á að móðir veiti aðilum máls þessa réttar og staðfestar upplýsingar um edrútíma sinn og um brotaferil sinn.

Afstaða kærenda byggi einnig á því að tíðni umgengni fósturbarna við kynforeldra og aðra í upprunafjölskyldu verði að taka mið af markmiði fóstursins. Börnin séu í varanlegu fóstri sem ætlað sé að standi til 18 ára aldurs þeirra. Markmiðið sé því ekki sameining þeirra við upprunafjölskyldu sína, heldur áframhaldandi vera þeirra hjá fósturforeldrum til fullorðinsára. Börnin eigi því rétt til stöðugleika í sínum aðstæðum og möguleika á að aðlagast fósturfjölskyldunni sem sinni eigin. Umgengni fósturbarna við upprunafjölskyldu sína sé því í þeim tilgangi að viðhalda tengslum sem þegar séu til staðar og einnig til að börnin geti þekkt uppruna sinn. Kærendur vísi til ítarlegrar umfjöllunar um þau markmið og um sjónarmið að baki 74. gr. barnaverndarlaga í hinum kærða úrskurði. Kærendur taki undir þá umfjöllun.

Í því sambandi vísi kærendur til þess að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við niðurstöður í sambærilegum málum hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærendur bendi á ítrekaðar forsendur í úrskurðum er varði umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fá frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda sé markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá sé einnig ítrekað byggt á því að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.

Kærendur vísi þannig til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 353/2018. Í þeim úrskurði sé staðfest neitun Barnaverndarnefndar C um aukningu á umgengni móður við barn í varanlegu fóstri, meðal annars með eftirfarandi rökstuðningi:

„[...] lögvarðir hagsmunir drengsins eru að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.“

Þannig byggi kærendur á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig best skuli hagað umgengni í varanlegu fóstri og telji að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu. Þau vilji standa vörð um réttindi barnanna um að viðhalda stöðugleika og ró í fóstrinu hjá þeim sem ætlað sé að vara til 18 ára aldurs.

Þá bendi kærendur jafnframt á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 201/2020 sem sé nánast samhljóða þeim sem þegar sé reifaður, en þar hafi verið staðfestur úrskurður um umgengni fósturbarns við móður tvisvar sinnum á ári.

Í greinargerð móður sé gert nokkuð úr því að ákvarðanir barnaverndaryfirvalda um umgengni fósturbarna í varanlegu fóstri fari gegn þeim mannréttindum sem þeim séu tryggð í Mannréttindasáttmála Evrópu og fullyrt að dómaframkvæmd hjá Mannréttindadómstól Evrópu styðji slíka túlkun. Þá sé vísað í ýmsa dóma dómstólsins því til stuðnings. Þá sé fullyrt að álykta megi af dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins að fósturbörn eigi rétt til sömu tíðni umgengni við kynforeldri sitt eins og skilnaðarbörn og þar sem það sé ekki framkvæmdin hér á landi sé verið að mismuna fósturbörnum. Auk þess sé því haldið fram að víða sé pottur brotinn í þessum málaflokki hér á landi og að fósturbörn almennt líði brot á mannréttindum sínum af þeim sökum.

Kærendur mótmæli þessum málatilbúnaði, enda eigi hann við fá rök að styðjast og alls engin lagarök. Þeir dómar sem vísað sé til í greinargerð varði annaðhvort málsmeðferð um forsjársviptingu eða ákvarðanir um fjölskyldusameiningu. Enginn dómanna taki á ákvörðunum um umgengni í varanlegu fóstri, enda sé slíkt úrræði ekki til á hinum Norðurlöndunum og í fáum öðrum Evrópulöndum. Til dæmis megi nefna að í málunum M.L. gegn Noregi og Strand-Lobben gegn Noregi, sem ítrekað sé vísað til í greinargerð, sé einvörðungu verið að fjalla um mál barna sem séu í tímabundnu fóstri og einnig sé fjallað um ákvarðanatöku varðandi mögulega ættleiðingu viðkomandi barna og þar með yrði hinu tímabundna fóstri slitið. Það sé sérstök málsmeðferð samkvæmt norskum lögum sem eigi ekkert skylt við ákvarðanatöku um forsjársviptingu hér á landi fyrir dómstólum, eða þess þá heldur við ákvarðanatöku varðandi umgengni barna í varanlegu fóstri. Vissulega sé fjallað um umgengni fósturbarnanna við kynforeldra sína í tilvitnuðum dómum Mannréttindadómstólsins, en sú umfjöllun sé sett fram í því samhengi að í tímabundnu fóstri eigi að stefna að fjölskyldusameiningu og umfjöllunarefnið hvort ákvarðanir um umgengni hafi verið teknar með hliðsjón af því. Mál þessi séu því í engu sambærileg við það mál sem hér sé til umfjöllunar.

Þannig sé í málatilbúnaði móður lagðar að jöfnu fósturvistanir í ýmsum Evrópulöndum, sem undantekningarlaust séu einvörðungu tímabundnar, við varanlegar fósturvistanir hér á landi. Þessum málatilbúnaði móður sé mótmælt.

Að lokum byggi kærendur kæru sína á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti aukningu á umgengni frá því sem úrskurðað hafi verið um fyrir örfáum mánuðum. Þá hafi verið kveðið á um aukningu á umgengni um eitt skipti á ári, sem kærendur telji hæfilega sem standi og reyna þurfi á hvort slík aukning raski ró barnanna í fóstrinu eða ekki.

Þá skuli þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Þau virði þann rétt barnanna og muni ávallt leitast við að styðja við umgengni þeirra við upprunafjölskyldu sína svo að þau megi njóta þeirra réttinda.

Rétt sé að taka fram að börnin njóti umgengni við kynföður sinn, föðurömmu ásamt fjölskyldu hennar og auk þess við tvær langömmur sínar og langafa. Því til viðbótar hafi þau hitt móðurömmu sína tvisvar með móður. Umgengni barnanna við upprunafjölskyldu þeirra sé því nú þegar sjö skipti á ári og sé þá ótalin sú aukning sem hinn kærði úrskurður hafi í för með sér.

Með vísan til þessara samvista barnanna við upprunafjölskyldu sína megi slá því föstu að börnin séu að viðhalda tengslum sínum við upprunafjölskyldu sína og þekki uppruna sinn.

Með vísan til alls framangreinds krefjist kærendur endurskoðunar á inntaki umgengni barnanna við móður sína samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar C þann 12. október 2021. Þess sé krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði þrisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, tvisvar á ári á Í og einu sinni á ári í C.

Í athugasemdum kærenda, dags. 14. desember 2021, ítreka þau afstöðu sína um að vera samþykk niðurstöðu fyrri úrskurðar Barnaverndarnefndar C, dags. 10. júní 2021. Kærendur telji hæfilegan tíma til umgengninnar vera tvær klukkustundir í senn og telji að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti frekari aukningu.

Þá ítreki kærendur einnig þær forsendur sem hafi komið fram í kæru að aukning um enn eitt skipti, í fjögur skipti á ári, í hinum kærða úrskurði byggi meðal annars á því að aðstæður móður séu góðar og fari batnandi, meðal annars vegna langs edrútíma. Það séu rangar upplýsingar og að mati kærenda gefnar í vondri trú af hálfu móður. Þær upplýsingar komi fram í greinargerð móður til Barnaverndarnefndar C, dags. 11. maí 2021, en ákæra hafi verið birt móður viku síðar eða hinn 18. maí 2021. Enginn reki hafi verið gerður að því af hálfu móður að upplýsa nefndina, hvorki um hina yfirvofandi dómsmeðferð né um þau ákæruatriði sem þar séu borin fram. Vakin sé athygli á því að móðir hafi játað öll brotin sem hún hafi verið ákærð fyrir eins og fram komi í dóminum. Þau ákæruatriði séu og auk þess niðurstaða dómsins sem hafi legið fyrir hinn 22. júní 2021, í beinni andstöðu við fullyrðingar móður um edrútíma sinn og batnandi hag og aðstæður sem haldið hafi verið fram gagnvart nefndinni, bæði í júní og á ný í október 2021.

Í forsendum hins kærða úrskurðar sé sérstaklega tekið fram að byggt sé á því að móðir hafi síðast verið í neyslu vímuefna árið 2019 sem kærendur hafi nú sýnt fram á að sé rangt. Því sé um að ræða rangar forsendur fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Móðir afpláni nú dóm sinn sem sé X ár og X mánuðir óskilorðsbundið og ljóst að hún hafi afar takmarkaðar aðstæður til að sinna umgengni sinni við börnin.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2021, sé í engu vikið að þessu atriði en kærendur vilji leggja ríka áherslu á að aukning á umgengni barnanna við móður við þessar aðstæður geti ekki samræmst hag þeirra og hagsmunum. 

Þá bendi kærendur á það að nýju að þau sjónarmið sem móðir byggi á gagnvart nefndinni sem finna megi í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu séu einnig rangar forsendur en eins og ítarlega hafi verið rökstutt í kæru sé í þeim málum öllum stefnt að fjölskyldusameiningu sem sé grunnstefið í fósturkerfum í Evrópu. Matið sem lagt sé á málin hjá Mannréttindadómstóli Evrópu byggi því ávallt á þeirri forsendu að barnið sem um ræði sameinist upprunafjölskyldu sinni að nýju og því eigi allar ákvarðanatökur um barnið á meðan á fóstri standi að miða að því að styðja það markmið. Um það sé ekki að ræða í máli þessu en eins og alkunna sé þá sé markmið með varanlegu fóstri einmitt ekki sameining barnanna við upprunafjölskyldu sína heldur þvert á móti að þau aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin og alist upp hjá henni til fullorðinsaldurs.

Þá skuli það einnig ítrekað að börnin njóti umgengni við fjölda aðila úr upprunafjölskyldu sinni, auk móður, en fram komi í fyrrnefndri greinargerð frá Barnaverndarnefnd C að börnin hitti nú alls 11 ættingja í umgengni í níu skipti á ári. Kærendur vilji jafnframt nefna að þess á milli móttaka þau bréf og gjafir til barnanna frá móður og raunar fleiri fjölskyldumeðlimum, til dæmis um afmæli, páska og jól.

Hvað varði afstöðu barnanna til tíðni umgengninnar sem fram komi í skýrslu talsmanns, dags. 10. mars 2021, telji kærendur að komið sé til móts við óskir barnanna um að það „væri gaman“ að hitta móður oftar með því að auka við umgengnina úr tveimur skiptum á ári í þrjú eins og hafi verið þegar samtalið við þau hafi farið fram. Aukning umfram það sé að mati kærenda óraunhæf, sérstaklega þegar tekið sé mið af aðstæðum móður nú. Þá bendi kærendur á að það virðist sem börnin vænti þess að hægt verði að fara áfram í göngutúr eða á bókasafn eða slíkt, sem augljóslega sé ómögulegt þegar móðir komi í umgengni úr afplánun og lúti eftirliti fangavarða á meðan á henni standi.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C kemur fram að um sé að ræða systkinin F á X ári og E, X ára gamla. Börnin lúti forsjá Barnaverndarnefndar C en móðir þeirra hafi afsalað sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi C þann 6. febrúar 2018. Faðir barnanna hafi aldrei farið með forsjá barnanna. Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi verið í máli barnanna frá því í byrjun árs 2013. Börnin hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á J síðan mars 2017, fyrst í tímabundnu fóstri og síðan í varanlegu fóstri frá 6. febrúar 2018. Bæði börnin hafi aðlagast vel á fósturheimilinu í J og eigi börnin sterk tengsl við fósturforeldra sína.

Barnaverndarnefnd C hafi fjórum sinnum úrskurðað í málefnum barnanna vegna umgengni við móður. Þann 2. maí 2018 hafi verið úrskurðað um umgengni tvisvar á ári undir eftirliti. Þann 24. september 2019 hafi Barnaverndarnefnd C úrskurðað að umgengni yrði aukin úr tveimur klukkustundum í þrjár klukkustundir, tvisvar á ári. Þann 1. júní 2021 hafi málið verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar C eftir að lögmaður móður hafi sent bréf, dags. 11. maí 2021, til Barnaverndar C þar sem móðir hafi óskað eftir aukinni umgengni. Óskað hafi verið eftir að umgengni barnanna við móður yrði á þann veg að börnin myndu dvelja á heimili móður aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags. Einnig hafi verið óskað eftir jóla-, áramóta- og páskaumgengni ásamt því að börnin myndu dvelja hjá henni í mánuð á hverju sumri. Þann 10. júní 2021 hafi barnaverndarnefnd úrskurðað að móðir skyldi eiga umgengni við börnin þrisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi fellt þann úrskurð úr gildi. Þann 12. október 2021 hafi umgengni móður verið aukin í fjögur skipti, þrjár klukkustundir í senn, með úrskurði barnaverndarnefndar.

Úrskurður barnaverndarnefndar frá 10. júní 2021 hafi verið felldur úr gildi eftir að móðir hafi kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála og úrskurðarnefnd hafi vísað málinu til barnaverndarnefndar til nýrrar meðferðar þann 13. september 2021. Fram hafi komið í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar að það væri mat úrskurðarnefndar að við ákvörðun um umgengni móður við börnin yrði að líta til þess hvað þjónaði hagsmunum barnanna best og að markmiðið væri ekki að styrkja tengsl barnanna við móður heldur einungis að viðhalda tengslum. Úrskurðarnefndin hafi talið að aukning á umgengni um eitt skipti á ári, úr þremur í fjögur skipti, væri ekki til þess fallin að valda togstreitu í fóstrinu.

Eftir að úrskurðarnefndin hafi fellt úrskurð barnaverndarnefndar úr gildi hafi starfsmaður Barnaverndar C haft samband við lögmann móður, þann 21. september 2021, í gegnum tölvupóst. Þar hafi verið vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar og hvort móðir myndi fallast á að eiga við börnin umgengni fjórum sinnum á ári, það er að bætt yrði við einni umgengni eins og mælst hafi verið til í úrskurði úrskurðarnefndar. Lögmaður móður hafi svarað starfsmanni samdægurs og vísað til þess að móðir féllist á það að bæta við einni umgengni en krefðist þess að úrskurðað yrði í málinu um umgengni í þessi fjögur skipti á ári.

Báðum börnunum hafi verið skipaður talsmaður til þess að afla afstöðu þeirra vegna beiðni um aukna umgengni við móður. Í talsmannskýrslu, dags. 10. mars 2021, hafi komið fram að báðum börnunum hafi þótt fyrirkomulagið um umgengni vera gott en gaman væri að hitta móður sína oftar og nefndu þau bæði „kannski fjórum sinnum á ári“. Bæði hafi þau greint frá því að þau hafi viljað óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri „í húsinu í C með fólkinu sem er að passa allt“. Talsmaður hafi spurt börnin hvort þau myndu vilja vera ein með móður sinni og svöruðu þau „þetta er bara mjög gott svona eins og það er“. Börnin hafi greint talsmanni frá því að þau vildu hitta móður sína fjórum sinnum á ári.

Samkvæmt 74. gr. a barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi um umgengni eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Haft hafi verið samband við fósturforeldra vegna kröfu móður um aukna umgengni og hafi fósturforeldar viljað reyna að mæta óskum barnanna og fjölga umgengni í þrjú skipti á ári. Fósturforeldrar hafi talið þrjú skipti á ári vera hæfilegt fyrir börnin í ljósi þess að börnin eigi einnig töluverða umgengni við aðra nákomna ættingja árlega.

Börnin hafi nú búið á fósturheimilinu síðan í byrjun árs 2017 og hafi börnin myndað sterk og innihaldsrík tengsl við fósturforeldra sína. Það komi fram hjá fósturforeldrum að börnin upplifi sig sem hluta af samfélaginu á J og séu þau hluti af stórfjölskyldu fósturforeldra. Börnin búi í dag við mikinn stöðugleika, séu í góðu jafnvægi og hafi tekið miklum framförum frá því að fósturvistun hafi byrjað. Fyrstu árin á fósturheimilinu hafi verið þeim erfið. E hafi glímt við mikið öryggisleysi, vantraust, ótta við höfnun og erfiðleika með náin samskipti. Þá hafi bæði börnin glímt við mikla innri streitu vegna vanrækslu og áfalla sem hafi birst í hegðun þeirra, tilfinningalegum óstöðugleika, slakri félagsfærni og vanda við að mynda og viðhalda tengslum eftir að hafa verið tekin úr streituvaldandi aðstæðum og óöryggi. Bæði börnin hafi á einlægan hátt unnið mikið með áföll sín og tilfinningar og verið opinská um þau við fósturforeldra sína og sálfræðinga. Fyrstu tvö árin á fósturheimilinu hafi bæði börnin haft mikla þörf fyrir öryggi, stöðugleika og traust til að ná jafnvægi og minnka innri streitu og að aðlagast nýju heimili og umhverfi.

Það jafnvægi sem ríki í lífi barnanna í dag sé afrakstur mikillar vinnu hjá fósturforeldrum og þeim fagaðilum sem börnin hafi notið aðstoðar frá en börnin séu bæði í mánaðarlegum sálfræðiviðtölum. Fósturforeldrar haldi vel utan um þeirra mál og ekki sé langt síðan jafnvægi hafi komist á í lífi barnanna. Af þeim sökum og út frá gögnum málsins sé það því mat starfsmanna barnaverndar að mikilvægt sé að fara varlega í allar breytingar á þeirra högum.

Börnin eigi bæði ríkulega umgengni við upprunafjölskyldu sína. Börnin hitti foreldra sína samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar C. Þá hitti þau einnig móðurömmu, föðurömmu og mann hennar ásamt tveimur börnum þeirra og tvær langömmur og mennina þeirra, allt samkvæmt samkomulagi um umgengni sem starfsmaður barnaverndar hafi aðkomu að. Þessi umgengni fari ýmist fram í C eða á Í með tilheyrandi ferðalögum fyrir börnin og fósturforeldra. Systkinin hitti alls 11 ættingja í umgengni níu sinnum á ári.

Í kröfu kærenda til úrskurðarnefndar sé þess krafist að úrskurður barnaverndarnefndar, uppkveðinn 12. október 2021, verði felldur úr gildi og umgengni ákveðin með sama hætti og í úrskurðinum frá 10. júní 2021, það er þrisvar sinnum á ári. Að mati kærenda sé um að ræða of mikla aukningu á umgengni frá því sem áður hafi verið þegar umgengni hafi verið tvisvar á ári og barnaverndarnefnd hefði átt að halda sig við þrjú skipti en ekki auka umgengni um 100%. Kærendur vísi til þess að ekkert í málinu réttlæti aukningu á umgengni frá því sem áður hafi verið úrskurðað um og telji kærendur að reyna þurfi á það hvort sú aukning sem úrskurðað hafi verið um í 10. júní 2021 muni raska ró barnanna í fóstrinu eða ekki.

Að mati Barnaverndarnefndar C hafi kröfur móður um aukna umgengni, sem hún lagði fram í bréfi þann 11. maí 2021, hvorki verið í samræmi við markmið varanlegs fósturs né til þess fallnar að búa börnunum öryggi og stöðugleika í lífi þeirra. Barnaverndarnefnd C hafi talið að svo umfangsmikil breyting gæti raskað þeirri ró sem hafi skapast í lífi barnanna.

Börnin búi í dag við öryggi og stöðugleika í lífi sínu og það ríki ró og jafnvægi í fóstrinu. Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eigi börn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu þeim nákomin. Í 74. gr. laganna sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við börn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnanna og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þeirra í fóstur.

Það sé mat Barnaverndarnefndar C að ekki sé of mikið lagt á börnin með því að umgengni þeirra við móður sé í fjögur skipti á ári og að það muni ekki raska ró þeirra og stöðugleika. Fram hafi komið í samtali við börnin að þau sjálf vilji auka umgengni við móður í fjögur skipti á ári og hafi talið það vera mátulegt. Þannig sé tekið tillit til vilja barnanna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Börnin eigi mikla umgengni við aðra ættingja en foreldra sína og hafi barnaverndarnefnd því talið æskilegt að fjórða umgengnin yrði sameinuð annarri umgengni hjá öðrum ættingjum ef unnt væri.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV. Afstaða móður

Barnaverndarnefnd C hafði samband við lögmann móður þann 22. september 2021 til að afla afstöðu móður til umgengni. Aðspurð hvort móðir myndi samþykkja umgengni í fjögur skipti á ári svaraði lögmaður að móðir tæki allri umgengni fegins hendi en hún teldi þó að umgengni í fjögur skipti á ári fullnægðu ekki lagaskyldum um umgengni. Þá tók lögmaður móður fram að móðir væri tilbúin að fallast á að bæta við einni umgengni en krefðist þess þó að úrskurðað yrði að nýju um umgengni.

Fulltrúi lögmanns móður mætti fyrir hönd móður á fund barnaverndarnefndar þann 5. október 2021 og gerði frekari grein fyrir sjónarmiðum móður. Fram kom að móðir væri ósátt og ekki samþykk tillögum starfsmanna. Móðir krefst umgengni við börnin sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til mánudags, á heimili sínu. Þá fer hún fram á það að börnin verði hjá henni í mánuð yfir sumartímann, auk jóla- og páskaumgengni sem einnig fari fram á heimili hennar. Einnig krefst móðir þess að afstaða barnanna til reglulegrar umgengni verði könnuð eftir að aðlögun með nánar tilgreindum hætti hefur farið fram.

V. Afstaða barna

Börnunum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við þau 10. mars 2021. Í skýrslu talsmanns kemur fram að börnunum líði vel að hitta móður sína og einnig eftir að hafa hitt hana. Börnin töluðu um að fyrirkomulag umgengni væri gott, að heimsóknir væru þrisvar á ári og þegar þau hittust væru þau að spjalla saman, færu stundum í göngutúr og einu sinni hafi þau farið á bókasafnið. Börnin greindu bæði frá því að það væri gaman að hitta móður sína oftar og aðspurð um hve oft nefndu þau bæði kannski fjórum sinnum á ári. Bæði greindu þau frá því að vilja óbreytt fyrirkomulag þannig að umgengni væri í húsinu í C með fólkinu sem er að passa allt. Aðspurð um hvort þau myndu vilja vera ein með móður sinni sögðu þau að fyrirkomulagið væri gott eins og það væri. Þegar börnin voru spurð um frekari afstöðu þeirra gagnvart umgengni höfðu þau ekki frá fleiru að segja.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan E er X ára gömul og drengurinn F er X ára gamall. Börnin lúta forsjá Barnaverndarnefndar C en móðir afsalaði sér forsjá með dómsátt fyrir Héraðsdómi C þann 6. febrúar 2018. Kærendur eru fósturforeldrar barnanna.

Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar C um umgengni fósturbarna kærenda við móður sína. Með úrskurðinum var samþykkt að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti. Skilyrði umgengni er að móðir sé edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengni.

Í 74. gr. a. barnaverndarlaga er kveðið á um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni. Þar segir í 1. mgr. að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Liggur fyrir að það var gert áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og lýstu fósturforeldrar því yfir að þau teldu umgengni þrisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn vera hæfilega. Að mati þeirra væri eðlilegast að sjá hvernig sú viðbótarumgengni myndi leggjast í börnin.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni börnin hafa af umgengni við móður.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar C, dags. 23. september 2021, kemur fram það mat starfsmanna barnaverndar að umgengni barnanna við móður ætti ekki að vera aukin úr þremur skiptum á ári og að það væru hagsmunir barnanna að halda umgengni óbreyttri. Að mati starfsmanna væri ljóst að börnin þekki vel til uppruna síns og eigi í góðum tengslum við það fólk sem það þekki úr upprunafjölskyldu sinni. Starfsmenn töldu mikilvægt að þeim stöðugleika, sem náðst hafi hjá börnunum á fósturheimilinu, væri haldið við.

Af hálfu Barnaverndarnefndar C hefur komið fram að börnin búi við öryggi og stöðugleika í lífi sínu í dag og því sé ekki talið að of mikið sé lagt á börnin með því að auka umgengni við móður um eitt skipti á ári. Barnaverndarnefnd sé með því að taka tillit til vilja barnanna þar sem komið hafi fram í samtali við börnin að þau vilji sjálf auka umgengni við móður og telji eitt skipti til viðbótar mátulegt. Í ljósi fjölda þeirra skipta sem börnin eigi umgengni við upprunafjölskyldu sína, eða samtals í níu skipti á ári, telji nefndin það æskilegast að fjórða umgengni móður verði sameinuð einhverri þeirri umgengni sem börnin eigi í dag við aðra ættingja. Það sé gert til þess að gæta betur að stöðugleika barnanna í fóstri. Það sé því mat barnaverndarnefndar að börnin eigi umgengni við móður sína fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn.

Eins og vikið er að hér að framan ber að mati úrskurðarnefndarinnar við úrlausn málsins að líta til þess hvaða hagsmuni börnin hafa af umgengni við móður. Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir þeirra að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að þannig séu þroskamöguleikar þeirra best tryggðir til frambúðar. Þau þurfa að fá svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Hvað varðar umgengni við móður barnanna er ekki verið að reyna styrkja þau tengsl, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af gögnum málsins, þar á meðal með hliðsjón af viðhorfi og aldri barnanna, að það sé börnunum fyrir bestu að umgengni þeirra við móður verði fjórum sinnum á ári í samræmi við hinn kærða úrskurð.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður talið að sú breyting sem orðið hafi á högum móður í kjölfar dóms 22. júní 2021 þegar hún hóf afplánun refsingar, gefi ekki tilefni til breytingar á þeirri umgengni sem þegar hefur verið ákveðin. Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar C.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 12. október 2021 um umgengni E og F við A staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum